UM

„Margbreytileiki og menningarmunur – Kennslufræðilegar lausnir:   Skóli án aðgreiningar í finnskum, íslenskum og hollenskum grunnskólum“ (e. Mixed classes And Pedagogical Solutions (MAPS): Inclusive education in diverse environments of FinlandIceland and the Netherlands). MAPS rannsóknin er þriggja ára samanburðarrannsókn á skólastarfi í Reykjavík, Helsinki og Amsterdam og er fjármögnuð af NordForsk. 

Í borgarsamfélögum hefur menningarleg aðgreining í gegnum val á búsetu og skóla mikil áhrif á skólastarf og félagslíf barna og ungmenna. Slík aðgreining hefur aukist hin síðustu ár, m.a. í höfuðborgum Finnlands, Íslands og Holllands. Markmið rannsóknarverkefnisins Margbreytileiki og menningarmunur – Kennslufræðilegar lausnir er að bera saman stefnur og aðgerðir sem móta landslag menningaraðgreiningar milli og innan skóla sem og þær sem ýta undir fulla þátttöku nemenda í skólastarfinu (inclusive practice). Sjónarhornið er fyrst og fremst á yngra stig grunnskólans.

Skólastarf í Helsinki, Reykjavik og Amsterdam er borið saman og ráðgert að nálgast viðfangsefnið í gegnum samtvinnun mismunarbreyta (e. intersectionality), s.s. stétt, uppruna, þjóðerni, kynferði og sértækar menntunarþarfir. Rannsóknin mun byggja undir þekkingu á félagslegu réttlæti í menntun, á stefnum og aðferðum til að skapa öflugt bekkjar- og skólasamfélag meðal nemenda af ólíkum uppruna og kennslufræðilegum lausnum fyrir margbreytilegan nemendahóp.  

Þessi samanburðarrannsókn hefur það að markmiði að skapa dýpri skilning á því hvernig stefnur og aðgerðir í anda inngildandi menntunar (e. inclusive education) eru mótaðar (macro), túlkaðar (meso) og framkvæmdar (micro) í skóla þar sem nemendur eru félagslega og námslega ólíkir. Megin rannsóknarspurningin felst í því að rannsaka hvernig hinar ýmsu stefnur um skóla án aðgreiningar eru mótaðar og svo festar í sessi í hversdagsvenjum skóladagsins, hvernig þær eru framkvæmdar í grunnskólum með tiltekna nemendasamsetningu varðandi stétt, uppruna, kynferði og sértækar menntunarþarfir nemenda í Reykjavík, Helsinki og svo hvernig félagslegar og kennslufræðilegar forsendur þeirra birtast í hversdagslegum athöfnum í skólastarfinu?  

Efniviðurinn sem varpar ljósi á rannsóknarspurninguna mun koma úr fyrirliggjandi rannsóknargreinum, stefnugreiningum, tölfræðigreiningum á lýðfræðiupplýsingum um skólahverfi borganna og svo etnografískri gagnasöfnun úr skólum. Megin tilgátan er sú að athugun í hverju landanna á menntastefnum (macro), inngildingu og aðgreiningu milli og innan skóla (meso), og svo bekkjarmenningu (micro) sé nauðsynleg til að fanga hvernig stefnu um skóla án aðgreiningar reiðir af á öllum sviðum samtímis í hverju landanna.

Stjórnandi MAPS-rannsóknarinnar er Dr. Sonja Kosunen, dósent við Helsinki Háskóla og stjórnandi íslenska teymisins er Dr. Berglind Rós Magnúsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands.

Helstu niðurstöður verkefnisins má sjá hér.