Auður Magndís Auðardóttir nýdoktor
Val(þröng) - Endursköpun stétttengdra og kynjaðra valdatengsla með foreldravenjum
Vörnin fór fram fimmtudaginn 3. júní kl. 13.00 í Hátíðasal Háskóla Íslands.
Andmælendur eru dr. Unn-Doris Bæck, prófessor við UiT Arctic háskólann í Noregi og dr. Ingólfur V. Gíslason prófessor við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands.
Aðalleiðbeinandi var dr. Berglind Rós Magnúsdóttir og meðleiðbeinandi dr. Annadís Greta Rúdólfsdóttir, dósentar við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.
Auk þeirra sátu í doktorsnefnd dr. Sonja Kosunen lektor við Helsinkiháskóla og dr. Gunnlaugur Magnússon dósent við Uppsalaháskóla.
Dr. Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, forseti Deildar menntunar og margbreytileika, stjórnaði athöfninni.
Um verkefnið:
Markmið þessarar rannsóknar er að greina hvernig valdatengsl eru endursköpuð með foreldravenjum á Íslandi með áherslu á stétt og kyn. Rannsókninni má skipta í tvo þætti. Í fyrri þættinum spyr ég hvernig foreldravenjur stuðla að endursköpun stétttengdra valdatengsla með vali á skóla og búsetusvæði. Í seinni þættinum spyr ég hvernig hið hæfa og verðuga foreldri er skilgreint með áherslu á kynjun þeirrar skilgreiningar. Þar er rýnt í stöðuna í yfirstandandi ástandi heimsfaraldurs.
Þrjú gagnasöfn voru notuð til að ná þessu markmiði. Til að rannsaka skóla- og hverfaval voru notuð 16 viðtöl við foreldra af milli- eða efri stéttum, þar af einn föður og 15 mæður. Einnig voru notuð tölfræðigögn frá Hagstofu Íslands um bakgrunn barnafjölskyldna í öllum skólahverfum höfuðborgarsvæðisins og bakgrunn fjölskyldna barna í einkaskólum. Þriðja gagnasafnið samanstendur af 97 sögum um foreldravenjur á tímum heimsfaraldurs. Þeim var safnað með sögulokaaðferð. Saman gera þessi þrjú gagnasöfn mér kleift að nálgast viðfangsefnið á blæbrigðaríkan og fjölbreyttan máta.
Gögnin voru greind með fræðikenningar Bourdieus til hliðsjónar en einnig út frá kenningum um stjórnvaldstækni nýfrjálshyggjunnar. Einkum notaði ég kenningar Bourdieus um endursköpun stétttengdra valdatengsla með beitingu táknræns auðmagns í félagslegu rými skóla og hverfa. Til viðbótar beitti ég femínísku og póststrúktúralísku sjónarhorni á viðfangsefnið. Þannig eru kynjuð og stétttengd valdatengsl skoðuð út frá mótandi áhrifum vals, valþröngar, tilfinninga, venja, orða og orðræðu.
Þrjár fræðigreinar mynda hryggjarstykki þessa verks. Fyrsta greinin fjallar um einkaskólaval, önnur greinin fjallar um hverfaval og sú þriðja er helguð birtingarmyndum stjórnvaldstækni nýfrjálshyggjunnar í foreldvenjum á tímum heimsfaraldurs. Saman vinna þessar fræðigreinar að markmiðum rannsóknarinnar. Á heildina litið sjáum við að foreldrahlutverkið er félagslegt rými sem er hlaðið áhættu og pyttum. Sú hætta virðist alltaf vera fyrir hendi að foreldrið taki rangar ákvarðanir við val á skóla (grein eitt), val á hverfi (grein tvö) og varðandi daglegar venjur fjölskyldunnar (grein þrjú). Þessi óstöðugleiki félagslega rýmisins sem mótar foreldrahlutverkið gerir það að verkum að kvíðinn er aldrei langt undan, einkum hjá mæðrunum. Þegar kvíðinn tekur völdin fara mæðurnar að efast um sjálfar sig, um val sitt og tilfinningar og úr verður sjálfsögun (e. self-governing). Í gegnum þessa sjálfsögun dregur svo stjórnvaldstækni nýfrjálshyggjunnar vald sitt. Þetta ferli er nátengt sköpun hinnar hæfu móður sem þarf þá að vanda val sitt, vera skipulögð, bjartsýn og hamingjusöm. Þessi hugmyndafræði og þessi sjálfsverustaða mæðranna stuðla að endursköpun kynjaðra og stétttengdra valdatengsla í íslensku samfélagi.
Um doktorsefnið:
Auður Magndís Auðardóttir fæddist í Reykjavík árið 1982. Hún lauk BA-gráðu í félags-og kynjafræði frá Háskóla Íslands árið 2005 og meistaragráðu í félagsfræði frá London School of Economics árið 2007.
Auður hefur starfað sem verkefnastjóri hjá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og hjá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar auk þess að hafa gegnt starfi framkvæmdastjóra Samtakanna ’78. Frá árinu 2017 hefur hún stundað rannsóknir og kennslu við Menntavísindasvið á sviði félagsfræði menntunar, kynjafræða og hinseginfræða. Hún tekur við nýdoktorsstöðu við Deild menntunar og margbreytileika á Menntavísindasviði nú í sumar. Auður er gift Írisi Ellenberger og á tvö börn, Bjart Einar og Ástrós Ingu.
One of our researchers in #MAPSresearch, @amagndis finalised her PhD yesterday at Uni Iceland with style. Her supervisor and team leader of Team Iceland in the project, @BRMagnusdottir congratulates on behalf of the whole project! @NordForsk pic.twitter.com/a3Frndrqe0
— Sonja Kosunen (@SonjaKosunen) June 4, 2021