Skaðlegt ef skólar verða of einsleitir

Skaðlegt ef skólar verða of einsleitir
Skaðlegt ef skólar verða of einsleitir - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Þegar við lítum tvo áratugi aftur í tímann þá er ýmislegt sem bendir til þess að ójöfnuður hafi aukist í grunnskólum á Íslandi. Þá óheillaþróun þarf að taka alvarlega og bregðast skjótt við,“ segir Berglind Rós Magnúsdóttir, dósent í félagsfræði menntunar við Háskóla Íslands. Berglind Rós hefur lengi rannsakað félagslegt réttlæti í menntun með áherslu á samverkandi áhrif stéttar, uppruna, kynferðis og sértækra menntunarþarfa á gæði skólastarfs. Hún er aðili að fjölþjóðlegum rannsóknarhópum á sviði samanburðarmenntunarfræði og stýrir nú íslenska hlutanum í samevrópskri rannsókn sem nefnist MAPS (e. Mixed Classes and Pedagogical Solutions).

MAPS-verkefnið er viðamikil samanburðarrannsókn á stétta- og menningarbundnu skólastarfi í Reykjavík, Helsinki og Amsterdam. Meginmarkmið verkefnisins er að greina stöðuna, þróa kennslufræðilegar lausnir og stefnumótandi hugmyndir að borgarskipulagi sem næra fjölbreytileika hverfa- og skólasamfélagsins, efla samheldni og bjóða upp á viðeigandi stuðning í námi.

„Borgir í Norður-Evrópu, rétt eins og í Bandaríkjunum og Bretlandi, standa frammi fyrir aukinni félags- og menningarlegri aðgreiningu í sínum skóla- og hverfasamfélögum. Aðgreining út frá stétt og uppruna hefur alltaf verið til staðar að einhverju marki. Aftur á móti verður hún skaðleg ef hún nær þeim hæðum að í einhverjum skólum séu langflestir nemendur að glíma við krefjandi fjárhags- og félagslegar aðstæður en í öðrum þyrpist saman börn þeirra sem hafa háan menntunar-, menningar- og fjárhagsauð,“ segir Berglind enn fremur og bætir við að skólar með hátt hlufall nemenda í krefjandi aðstæðum eigi erfiðara með að standa undir námskröfum og komi verr út á stöðluðum prófum sem ýtir undir enn frekari aðgreiningu.

Lítið sem ekkert hefur verið fjallað um aðgreiningu í íslensku grunn- og framhaldsskólakerfi og virðist mýtan um að Ísland sé stéttlaust samfélag ansi lífseig. Auður Magndís Auðardóttir, doktorsnemi við Háskóla Íslands, er ein þeirra sem kemur að rannsókninni. Hún hefur undanfarið kortlagt nemendasamsetningu í skólahverfum á höfuðborgarsvæðinu út frá stétt, uppruna og öðrum mikilvægum lýðfræðilegum upplýsingum. „Í verkefninu erum við að skoða stétt í víðara samhengi en áður hefur verið gert hér á landi og notum til þess gögn frá Hagstofu Íslands. Þegar að við rýnum í gögnin sjáum við að aðgreiningin milli skólahverfa er töluvert skýrari núna en fyrir tuttugu árum síðan. Í rauninni eru hverfin sífellt að verða ólíkari, þótt mörg þeirra séu vissulega blönduð ennþá, sérstaklega í alþjóðlegu samhengi stórborga þar sem skil milli hverfa eru oft mjög afdráttarlaus. Það eru skólar hér í Reykjavík þar sem um helmingur barna koma frá ríkum heimilum og svo aðrir þar sem mikill meirihluti barna býr við krefjandi fjárhagslegar og félagslegar aðstæður,“ segir Auður.

„Við getum brugðist við núna en ef ekkert verður að gert munum við sitja uppi með  tvær þjóðir í landinu,“ útskýrir Berglind að lokum og leggur áherslu á að ekki sé nóg að greina gögn. „Það hvernig við vinnum úr þessum niðurstöðum og hvaða aðgerðir við ráðumst í skiptir höfuðmáli. Ráðstefnan á miðvikudaginn er einmitt hugsuð til að koma af stað samtali milli fræðimanna, stjórnmálamanna, sérfræðinga og skólafólks.“

Auk Berglindar og Auðar, tekur Anna Kristín Sigurðardóttir, prófessor í stjórnun menntastofnana og Elizabeth Lay, doktorsnemi við Háskóla Íslands, þátt í verkefninu. Alls telur rannsóknarhópur verkefnisins fjórtán vísindamenn frá þremur löndum.

Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar verða kynntar 8. maí á ráðstefnu í Ráðhúsi Reykavíkur. Ráðstefnan hefst klukkan 14 og er öllum opin.

Verkefnið er stutt af NordForsk og er til þriggja ára.

Fyrstu niðurstöður MAPS-verkefnisins verða kynntar 8. maí á ráðstefnu í Ráðhúsi Reykavíkur. Á myndinni eru frá vinstri: Auður Magndís Auðardóttir, doktorsnemi við Háskóla Íslands og Berglind Rós Magnúsdóttir, dósent í félagsfræði menntunar og teymisstjóri íslenska hluta MAPS-verkefnisins.

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *